Erlent

Þrjár stúlkur látnar eftir kyn­færamis­þyrmingu í Si­erra Leone

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umskurður kvenna tíðkast enn í um 30 ríkjum heims.
Umskurður kvenna tíðkast enn í um 30 ríkjum heims. Getty/Europa Press/Carlos Lujan

Lögregluyfirvöld í Síerra Leóne rannsaka nú dauðsföll þriggja stúlkna sem létust eftir að þær voru látna gangast undir umskurð, sem felur í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð að öllu leyti eða að hluta til.

Um hreina misþyrmingu er að ræða, enda um að ræða óafturkræft tjón á líkama stúlkna og kvenna og aðgerðirnar oft framkvæmdar með tilfallandi eggvopnum og án deyfingar. Umskurður er víðast hvar bannaður og talinn alvarlegt brot á réttindum kvenna en tíðkast enn í um 30 ríkjum.

Samkvæmt staðarmiðlum létust Adamsay Sesay, 12 ára, Salamatu Jalloh, 13 ára og Kadiatu Bangura, 17 ára, þegar nokkurs konar hátíð fór fram í norðvesturhluta Síerra Leóne í janúar.

Að sögn Aminata Koroma, framkvæmdastjóra Forum Against Harmful Practices, eru foreldrar stúlknanna og þeir sem framkvæmdu umskurðinn nú í haldi lögreglu. FAHP hefur barist fyrir löggjöf gegn umskurði kvenna.

Samtökin hafa einnig efnt til hátíða þar sem stúlkur eru teknar í tölu fullorðina, án þess að umskurður eigi þátt. Koroma segir umskurðin tíðkast í samfélögum þar sem margt sé jákvætt en áskorunin sé sú að útrýma umskurði úr menningu þeirra.

Koroma segist ekki eiga von á því að sjá umskurð heyra sögunni til en það muni vonandi gerast á líftíma næstu kynslóðar, sem muni verða sú kynslóð sem tekst að uppræta ófögnuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×