Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við fréttamann að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra hafi haldið utan um frumvarpið. „Og eins og gefur að skilja þarf að hnýta ýmsa hnúta til þess að búa vel um það. En ég á von á því að það verði rætt milli flokka á Alþingi í kjölfar fundar okkar í dag þar sem við fórum yfir stöðu málsins.“
Samtal við banka og lífeyrissjóði gengið ágætlega
Þá segist Katrín vænta þess að hægt verði að kynna málið í lok vikunnar. Hún segir frumvarpið lúta að því að fólki verði gert kleift að kaupa sér húsnæði og koma sér fyrir á nýjum stað.
„Að þau sitji við sama borð, þau sem geta ekki búið í Grindavík vegna aðstæðna, og þau sem hafa fengið húsin metin af náttúruhamfaratryggingu sem tjónað hús,“ segir Katrín.
„Því það er auðvitað þannig að meðan það er ekki metið öruggt að vera í bænum þá er staðan auðvitað mjög flókin þó að þú sért ekki með tjónað hús.“
Katrín segir að með frumvarpinu sé verið að skoða eins konar forkaupsrétt inn í þá vinnu. Þá segir hún mikilvægt að bankar og lífeyrissjóðir komi að málinu sem veðhafar í húsunum.
„Og það samtal hefur staðið yfir og gengið ágætlega en því er ekki lokið. Og ég vonast náttúrlega til þess að því verði ljúki þá líka í þessari viku.“