Körfubolti

Valur og Þór unnu örugga útisigra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 24 stig fyrir Val í kvöld.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 24 stig fyrir Val í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Valur og Þór unnu örugga útisigra er keppni í neðri hluta Subway-deildar kvenna í körfubolta hófst í kvöld.

Valskonur sóttu Fjölni heim og þrátt fyrir að vera fjórum stigum undir að loknum fyrsta leikhluta leiddu gestirnir með fimm stigum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 33-38.

Valsliðið steig svo bensínið í botn í síðari hálfleik og skoraði 25 stig gegn 11 stigum Fjölnis í þriðja leikhluta. Það sama var uppi á teningnum í lokaleikhlutanum og Valskonur unnu að lokum öruggan 33 stiga sigur, 54-87.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Brooklyn Pannell drógu vagninn í liði Vals og skoruðu 24 stig hvor. Í liði Fjölnis var Raquel Laneiro atkvæðamest með 20 stig.

Þá vann Þór Akureyri afar öruggan 23 stiga útisigur gegn Snæfelli, 53-76. Gestirnir frá Akureyri leiddu með 11 stigum í hálfleik, en stungu svo endanlega af í þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði 28 stig gegn átta stigum heimakvenna. Heimakonur klóruðu örlítið í bakkann í fjórða leikhluta, en þá voru úrslitin þegar ráðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×