Körfubolti

Njarð­víkingar neita að tjá sig um fölsunina

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Karlsson er formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.
Halldór Karlsson er formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Njarðvík

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur enn engin viðbrögð sýnt eftir að Vísir greindi frá fölsunarmáli sem komið er inn á borð KKÍ.

Málið snýr að félagaskiptum Irenar Sólar Jónsdóttur úr Keflavík í Njarðvík en þau hafa nú verið dregin til baka. Nafn Ingva Þórs Hákonarsonar, formanns körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, var skráð á félagaskiptablað en Ingvi kannast ekki við að hafa skrifað nafnið sitt sjálfur. Njarðvíkingar hafi því falsað undirskrift hans.

Vísir hringdi í Halldór Karlsson, formann körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, í morgun en hann kvaðst ekki ætla að tjá sig um málið, sem eins og fyrr segir er nú á borði KKÍ. Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir þetta í fyrsta sinn sem svona fölsunarmál komi upp í íslenskum körfubolta.

Hugðist spila hjá systur sinni en væntanlega hætt í vetur

Irena er 26 ára gömul og byrjaði í vetur að spila að nýju eftir barnsburð. Hún hefur komið við sögu í níu leikjum með Keflavík í vetur, og spilað alls 66 mínútur.

Systir Irenu, Kristjana, er aðstoðarþjálfari Njarðvíkur svo ef að félagaskiptin hefðu gengið eftir þá hefði Irena spilað undir handleiðslu systur sinnar.

Samkvæmt upplýsingum Vísis var ákvörðun um að Irena færi í Njarðvík tekin á síðustu stundu, rétt áður en félagaskiptaglugginn lokaðist á miðnætti aðfaranótt 1. febrúar, greinilega án samþykkis stjórnar körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Eftir því sem Vísir kemst næst hefur Irena ekki í hyggju að spila meira með Keflavík það sem eftir lifir leiktíðar, og þar með ekki meiri körfubolta í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×