Golf

Spilaði besta golfhring sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristobal Del Solar trúði því varla að hafa klárað fyrsta hringinn á Astara Golf Championship á 57 höggum.
Cristobal Del Solar trúði því varla að hafa klárað fyrsta hringinn á Astara Golf Championship á 57 höggum. Getty/Hector Vivas

Síleski kylfingurinn Cristobal Del Solar skrifaði í gær nýjan kafla í golfsöguna eftir frábæra spilamennsku sína á Astara mótinu.

Þessi þrítugi kylfingur lék fyrsta hringinn á mótinu á 57 höggum. Þetta er lægsta golfskor í sögunni á einni af mótaröðunum sem tengjast PGA.

Hingað til hafði 58 högg verið það lægsta en í kringum þrjátíu kylfingum hafði tekist að leika hring á undir sextíu höggum.

Metið átti áður Bandaríkjamaðurinn Bryson Dechambeau sem lék á 58 höggum í fyrra þegar hann vann sitt fyrsta mót á LIV mótaröðinni.

Með því að spila hringinn á 57 höggum þá lék Del Solar á þrettán höggum undir pari. Menn voru fljótir að gefa honum gælunafnið „Mr. 57“ eða „Herra 57“.

Hann var með níu fugla og tvo erni á hringnum en Astara er hluti af Korn Ferry mótaröðinni en þetta er þróunarmótaröð fyrir þá bandarísku.

Del Solar fékk að vita af metinu þegar hann var hálfnaður og tryggði sér það með því að fá par á átjándu holunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×