Sport

Mikill meiri­hluti sér­fræðinganna spáir Chiefs sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes þykir líklegur til að vinna sinn þriðja titil með Kansas City Chiefs.
Patrick Mahomes þykir líklegur til að vinna sinn þriðja titil með Kansas City Chiefs. AP/Martin Meissner

Leikurinn um Ofurskálina fer fram í Las Vegas á sunnudagskvöldið og það lítur út fyrir að þeir sem fylgjast vel með hafi miklu meiri trú á öðru liðinu.

Lið San Francisco 49ers var miklu meira sannfærandi á þessu NFL tímabili og það væri því langeðlilegast ef að þeim væri spáð sigri í Super Bowl leiknum í ár. Það er samt ekki svo.

ESPN fjallar vel um NFL-deildina og hefur stóran hóp fólks í vinnu við að greina leikina, taka viðtöl og fjalla um það sem fer fram.

ESPN ákvað að fá alla þessa aðila, 64 talsins, til að spá fyrir um lokatölur í Super Bowl leiknum á sunnudaginn en leikurinn er á milli 49ers og Kansas City Chiefs og fer fram í Las Vegas.

Kansas City Chiefs er ríkjandi meistari eftir sigur á Philadelphia Eagles í fyrra en Chiefs liðið hefur verið gagnrýnt mikið í allan vetur. Þegar verst gekk bjuggust mjög fáir við því að liðið færi alla leið í ár enda virtist sóknarleikurinn vera lengi vel í molum.

Patrick Mahomes og félagar unnu frábæra útisigra á sterkum liðum á leið sinni í úrslitaleikinn og nú trúir fólk aftur á meistarana.

Sérfræðingar ESPN hafa mikla trú á því að Chiefs liðið verji titilinn og verði fyrsta liðið til að gera það í tvo áratugi.

49 af 64 spámönnum telja að Kansas City Chiefs verði NFL meistari í ár eða 76,6 prósent. Aðeins 23,4 prósent spáð því að San Francisco 49ers vinni sinn fyrsta meistaratitil frá árinu 1995.

Flestir spáðu leiknum 27-24 eða átta talsins en sjö spáðu honum 27-21. Mest var spáð 64 skoruðum stigum í leiknum (34-30) en minnst 37 stigum (20-17). Sá sem spáð stærstum sigri spáði 20 stiga sigri (34-14) en annars voru 52 af 64 á því að leikurinn myndi vinnast á snertimarki eða minna.

San Francisco 49ers og Kansas City Chiefs mætast í leiknum um Ofurskálina í ár en Super Bowl hátíðin er að sjálfsögðu sýnd beint á Stöð 2 Sport 2. Útsendingin hefst klukkan 22.00 á sunnudaginn með upphitun fyrir leikinn en leikurinn sjálfur byrjar síðan upp úr klukkan 23.30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×