Kansas City Chiefs vann Super Bowl annað árið í röð eftir sigur á San Francisco 49ers í framlengdum leik, 25-22.
Eftirsóknin eftir miðum á Super Bowl er mikil og miðarnir eru rándýrir. Talið er að miðarnir á leikinn í gær hafi kostað á bilinu 5.500-18.000 Bandaríkjadala, eða 760.000-2,5 milljónir íslenskra króna.
Tveir aðdáendur dóu þó ekki ráðalausir og virðast hafa svindlað sér inn á Allegiant leikvanginn í Las Vegas, klæddir sem starfsmenn Sky Sports.
Annar þeirra birti mynd af þeim félögum á Twitter, með Sky Sports derhúfur. Þeir virðast einnig vera með blaðamannapassa, merkta Sky Sports, eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.
Alls voru 65 þúsund manns á Super Bowl í gær auk þess sem milljónir fylgdust með leiknum í sjónvarpi.