Neytendur

Stað­festu öll brot Svens á auglýsingabanni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svens rekur fjölda nikótínpúðaverslana. Þessi er í Borgartúni í Reykjavík.
Svens rekur fjölda nikótínpúðaverslana. Þessi er í Borgartúni í Reykjavík. Vísir/Egill

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu að Svens braut gegn auglýsingabanni gegn nikótínvörum með auglýsingum á samfélagsmiðlum og með merkingum á verslunum og bílum félagsins.

Það var sumarið 2023 sem Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingar nikótínpúðaverslunarsinnar hefðu verið ólögmætar og fékk fyrirtækið fjögurra vikna frest til að fjarlægja þær.

Örsmátt letur um nikótínleysi

Annars vegar var um að ræða auglýsingu af fígúrunni Sven, hinum ljóshærða karlmanni í bláum bol með svört gleraugu, dansandi með nikótínpúða undir vörinni og með púðadós í annari hendi. Yfirskriftin var „með 10.000 kodda í vasanum.“

Hins vegar var það auglýsing með yfirskriftinni „Meira en 150 tegundir og 11 búðir“ þar sem verið var að vísa til vöruúrvals verslunarinnar á nikótínpúðum.

Þá voru auglýsingamerki framan á verslunum, sem sýna stórar dósir, úrskurðaðar ólögmætar. En í örsmáu letri á þeim skiltum segir að dósirnar séu nikótínlausar.

Eigendur Svens ákváðu að kæra ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndarinnar. Kristján Ra. Kristjánsson, sem á fjörutíu prósenta hlut í félaginu sagðist vilja fá efnislega niðurstöðu í málið. Eigendurnir myndu ekki hika við að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum.

Auk Kristjáns á Ragnar Orri Benediktsson 40 prósenta hlut í fyrirtækinu og Matthías Björnsson 20 prósent.

Auglýsingarnar verði að vera skýrar

Í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála segir að nefndin telji meðalhófs hafa verið gætt við setningu laga sem banna auglýsingar á nikótínvörum þrátt fyrir að tjáningarfrelsi Svens og annarra sem selja nikótínvörur hafi verið skert.

Ákvörðun Neytendastofu snúi að kynningu á vörum sem innihaldi ekki nikótín og við skýringu á ákvæðum laganna þurfi að líta til þess að þau feli í sér takmörkun á stjórnarskrárbundnum réttindum. Þrátt fyrir það verði einnig að gera ákveðnar kröfur um að ekki fari á milli mála að þær vörur sem auglýstar eru falli utan auglýsingabannsins. Auglýsingar sem geti átt við um bæði nikótínvörur og nikótínlausar vörur verði því taldar falla undir bannið.

Þá segir nefndin að auglýsingar Svens séu ekki nægjanlega skýrar um að auglýstar vörur séu nikótínlausar. Því brjóti þær gegn auglýsingabanni. Háttsemi Svens brjóti í bága við góða viðskiptahætti.

Var ákvörðun Neytendastofu staðfest að öllu leyti.


Tengdar fréttir

Aug­lýsingar Svens ó­lög­legar

Neytendastofa hefur úrskurðað auglýsingar nikótínpúðaverslunarinnar Svens ólögmætar og veitt fyrirtækinu fjögurra vikna frest til að fjarlægja þær.

Svens kærir á­kvörðun um ó­lög­mætar aug­lýsingar

Forsvarsmenn nikótínpúðaverslunarkeðjunnar Svens hafa ákveðið að kæra ákvörðun Neytendastofu, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að auglýsingar Svens og merkingar á verslunum séu í andstöðu við ákvæði laga um nikótínvörur, til áfrýjunarnefndar neytendamála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×