Handbolti

Óðinn marka­hæstur og í Evrópusigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson átti frábæran leik fyrir Kadetten í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson átti frábæran leik fyrir Kadetten í kvöld. Vísir/Vilhelm

Íslensku landsliðsmennirnir Óðinn Þór Ríkharðsson og Viktor Gísli Hallgrímsson áttu góða leiki er lið þeirra, Kadetten Schaffhausen og Nantes, unnu mikilvæga sigra í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld.

Óðinn var markahæsti maður vallarins með átta mörk úr níu skotum er Kadetten vann þriggja marka sigur gegn Vojvodina, 27-24. 

Eftir að hafa verið undir stóran hluta fyrri hálfleiksins náðu Óðinn og félagar tökum á leiknum og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 15-13.

Liðið hafði svo yfirhöndina allan seinni hálfleikinn og leiddi mest með sex marka mun. Eftir það var sigur þeirra aldrei í hættu og Kadetten vann að lokum þriggja marka sigur, 27-24.

Kadetten Schaffhausen situr á toppi þriðja riðils með fjögur stig eftir þrjá leiki, tveimur stigum meira en Vojvodina sem situr á botninum.

Þá varði Viktor Gísli Hallgrímsson 15 skot og var með rúmlega 31 prósent hlutfallsmarkvörslu er Nantes vann öruggan sex marka sigur gegn Hannover-Burgdorf í riðli eitt. Nantes og Hannover-Burgdorf deila nú efsta sæti riðilsins, bæði lið með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×