Fótbolti

Skera niður pening til EM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir ræðir hér við þær Sveindísi Jane Jónsdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur á síðasta Evrópumóti þar íslensku stelpurnar voru meðal þátttökuþjóða.
Dagný Brynjarsdóttir ræðir hér við þær Sveindísi Jane Jónsdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur á síðasta Evrópumóti þar íslensku stelpurnar voru meðal þátttökuþjóða. VÍSIR/VILHELM

Svisslendingar eru ekki að vinna sér inn mörg stig í kvennafótboltaheiminum eftir nýjustu fréttir.

Svissnesk stjórnvöld hafa nefnilega tilkynnt það að þau ætla að skera niður fjárútlát til Evrópumóts kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sviss á næsta ári.

Sviss var valið sem gestgjafi keppninnar 4. apríl í fyrra. Þetta er fjórtánda Evrópumót kvenna en það síðasta fór fram í Englandi 2022.

Sextán þjóðir komast á mótið sem verður haldið í átta borgum frá 2. til 27. júlí 2025.

Knattspyrnusamband Evrópu ákvað að Sviss fengi mótið frekar en sameiginlegt framboð frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Úrslitaatkvæðagreiðslan fór 9-4 fyrir Sviss.

Svissnesk stjórnvöld ætluðu að veita fimmtán milljónum svissneskra franka til mótsins en hafa skorið þessa upphæð verulega niður. Nú fara bara fjórar milljónir til mótsins. Fimmtán milljónir svissneskra franka eru 2,3 milljarðar íslenskra króna en fjórar milljónir eru 625 milljónir.

Þegar Sviss hélt Evrópumót karla árið 2008 þá settu stjórnvöld 82 milljónir svissneskra franka í mótið. Þarna er gríðarlegur munur á milli kynjanna.

Þessar fréttir eru frekar vandræðalegar fyrir Sviss ekki síst þar sem kvennafótboltinn er í gríðarlegri sókn og síðustu stórmót hans hafa aðeins aukið hróður hans út um allan heim.

Dregið verður í riðla fyrir undankeppni mótsins þann 5. mars. Óljóst er hvort Ísland verði í efsta eða næstefsta styrkleikaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×