Innlent

Fjögur hundruð þúsund í­búar á Ís­landi, en samt ekki

Bjarki Sigurðsson skrifar
Íbúar Íslands eru að öllum líkindum ekki fjögur hundruð þúsund talsins.
Íbúar Íslands eru að öllum líkindum ekki fjögur hundruð þúsund talsins. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt skráningu Þjóðskrár eru fjögur hundruð þúsund íbúar með skráð lögheimili á Íslandi. Að mati fjármálaráðuneytisins erum við þá hvergi nærri þeirri tölu, heldur er hún ofmetin upp á sirka fjórtán þúsund manns. 

Á vef Þjóðskrár segir að íbúar á landinu séu 400.022 talsins. 207 þúsund þeirra eru karlar en 193 þúsund konur á meðan 170 eru kynsegin. 324 þúsund eru íslenskir og 76 þúsund erlendir. Fimmtíu þúsund íslenskir ríkisborgarar eru búsettir erlendis. 

Íbúafjöldi Íslands eftir landshlutum. Þjóðskrá

Þetta er þó að öllum líkindum ekki rétt, að minnsta kosti að mati Hagstofunnar. Í tilkynningu sem kom frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir fimm dögum síðan kemur fram að Hagstofan hafi unnið að endurbættri aðferð við að meta íbúafjölda á Íslandi. Tölur unnar með endurbættu aðferðinni munu birtast þann 21. mars næstkomandi. 

Líklegt þykir að ofmatið megi skýra þannig að einstaklingar upplýsi Þjóðskrá ekki um það þegar þeir flytja úr landi.

„Einstaklingar hafa ríkan hvata til að skrá sig inn í landið, fá kennitölu og þar með ýmsa þjónustu, eins og að opna bankareikning og skrá lögheimili. Slíkir hvatar eru ekki til staðar þegar einstaklingar flytja úr landi,“ segir í tilkynningunni frá ráðuneytinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×