Sport

Hamars­menn lyftu bikarnum fjórða árið í röð

Siggeir Ævarsson skrifar
Hamar blak

Hamar frá Hveragerði tryggði sér bikarmeistaratitil karla í blaki fjórða árið í röð nú í dag þegar liðið lagði Þrótt/Fjarðabyggð í úrslitum.

Hamar vann nokkuð öruggan sigur í úrslitaleiknum þegar upp var staðið en liðið vann þrjár fyrstu hrinur leiksins og þar með leikinn en lokaandartök leiksins urðu ansi skrautleg.

Þróttarar byrjuðu leikinn ágætlega og áttu í fullu tré við Hamar en Hamarsmenn snéru fljótlega vörn í sókn og unnu fyrstu hrinuna 25-19. Hamar hélt sínu striki í annarri hrinu og vann hana einnig, 25-17. Þróttarar reyndu hvað þeir gátu og sýndu mikla baráttu á köflum en það dugði einfaldlega ekki til gegn sterku liði Hamars.

Staðan því orðin 2-0 fyrir þriðju hrinuna, sem Hamarsmenn unnu að lokum 25-17. Í stöðunni 24-17 kom upp skrítið atvik og endaði úrslitaleikurinn á ansi skrautlegri senu. Þróttarar voru að gera sig klára í uppgjöf þegar dómarinn sá eitthvað athugavert við uppröðun leikmanna.

Eftir mikið japl, jaml og fuður milli dómara og leikmanna var niðurstaðan að Hamri var dæmt stig og þar með var titillinn í höfn. Ekki beinlínis hápunktur til að enda á en yfirburðir Hamars voru töluverðir í leiknum og flest stefndi í sigur þeirra þrátt fyrir þessa uppákomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×