Handbolti

Teitur sjóðandi heitur í sigri Flensburg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Teitur Örn og félagar í Flensburg báru sigur úr býtum í dag
Teitur Örn og félagar í Flensburg báru sigur úr býtum í dag

Teitur Örn Einarsson var markahæstur í liði Flensburg sem vann stórsigur á útivelli gegn Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag.

Flensburg var í þriðja sæti fyrir leikinn í dag en lið Rhein-Neckar um miðja deild. Teitur hefur ekki fengið alltof mörg tækifæri í vetur en var kominn með 37 mörk í 18 leikjum liðsins á tímabilinu.

Hann bætti hins vegar ágætlega í sarpinn í dag. Teitur var markahæstur hjá Flensburg með sex mörk í 35-26 sigri liðsins. 

Flensburg var 17-13 yfir í hálfleik en Ljónin frá Rhein-Neckar byrjuðu síðari hálfleikinn á því að minnka muninn niður í eitt mark snemma í síðari hálfleik. Flensburg tók þá við sér á ný og forystan var orðin sex mörk þegar tíu mínútur voru eftir.

Flensburg vann að lokum níu marka sigur 35-26 og styrkir því stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar. Liðið er fjórum stigum á eftir Magdeburg og Fusche Berlin sem eru jöfn á toppnum en Fusche Berlin hefur leikið tveimur leikjum minna og Magdeburg tveimur. Magdeburg spilar þessa stundina gegn Hannover-Burgdorf.

Teitur skoraði sex mörk úr níu skotum í dag auk þess að gefa eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×