Öldungadeild þingsins hefur þegar samþykkt hinn 60 milljarð dala pakka en málið hefur ekki komist í gegnum fulltrúadeildina sökum andstöðu meðal Repúblikana.
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir tafirnar þegar farnar að koma niður á Úkraínu, þar sem Rússar hafi nýtt sér aðfangaskort Úkraínuhers til að sækja fram. Staðan sé orðin erfið víða á framlínunni, ekki síst þar sem Rússar hafi mikinn herafla.
Bandaríkjamenn sendu Úkraínu svokallaðar Atacms-eldflaugar í fyrra, með þeim skilyrðum að þær yrðu ekki notaðar gegn skotmörkum í Rússlandi. Nú virðast þeir reiðubúnir til að sjá Úkraínumönnum fyrir langdrægri útgáfu eldflauganna, sem myndi gera þeim kleift að ráðast gegn skotmörkum á Krímskaga.
Samkvæmt heimildarmönnum NBC gæti framkvæmdin orðið þannig að bandamenn Bandaríkjanna innan Atlantshafsbandalagsins flyttu flaugar til Úkraínu gegn því að Bandaríkjamenn fylltu á birgðir þeirra síðar.
Rússar náðu Avdiivka á sitt vald á dögunum, sem varnarmálaráðherra Úkraínu, Rustem Umerov, sagði sýna að Úkraínumenn þyrftu að fá langdræg vopn til að geta tortímt þyrpingum óvinarins.
Langdræg vopn eru einnig sögð hafa verið til umræðu á fundi Antony Blinken og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Úkraínu á laugardag. Kulega sagði í kjölfarið að langdrægar flaugar væru eina leiðin til að ná aftur hernumdum svæðum Úkraínu.