Enski boltinn

„Klikkuðum á grunn­at­riðinum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eddie Hower (t.h.) og hans hundtryggi aðstoðarmaður Jason Tindall.
Eddie Hower (t.h.) og hans hundtryggi aðstoðarmaður Jason Tindall. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

„Við vorum ekki líkir sjálfum okkur í fyrri hálfleik. Við vorum mikið betri í seinni hálfleik þangað til þriðja markið sló okkur niður,“ sagði Eddie Howe eftir 4-1 tap sinna manna í Newcastle United gegn Arsenal á Emirates-vellinum í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal tapaði fyrir Porto ytra í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en það var ekki að sjá að Skytturnar væru þreyttar eða með lítið sjálfstraust en Newcastle átti engin svör í fyrri hálfleik.

„Arsenal spilaði mjög vel, við gerðum það ekki og okkur var refsað. Við vorum ekki líkir sjálfum okkur í neinum fösum af okkar leik. Við klikkuðum á grunnatriðinum.“

„Arsenal setti gríðarlega pressu á okkur og við gerðum tæknileg mistök. Stundum, þegar þú lendir í stormi sem þessum, þarftu að ná stjórn á honum en því miður gerðum við það ekki.“

„Við byrjuðum síðari hálfleikinn virkilega vel og fengum færum til að ná inn marki, það hefði verið mjög mikilvægt.“

„Við vorum ekki þar sem við eigum að vera. Ég veit ekki hvort þetta var andlegt eða tæknilegt, við bara vorum ekki til staðar,“ sagði Howe að endingu.

Newcastle United er í 8. sæti með 37 stig að loknum 26 leikjum. Arsenal er í 2. sæti með 58 stig, tveimur frá toppliði Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×