Orðrómur fór af stað í vikunni um að Aguero ætlaði að taka skóna af hillunni og byrja aftur að spila fótbolta í heimalandinu.
Aguero setti fótboltaskóna upp á hillu í desember 2021 en hann var þá leikmaður Barcelona. Ástæðan voru hjartsláttartruflanir sem þvinguðu hann til að hætta aðeins 33 ára gamall.
„Þetta er algjör lygi. Ég er ekki að fara að æfa með Independiente,“ sagði Aguero. Góðar fréttir frá lækni hans um að hann mætti spila fótbolta á ný setti boltann af stað í fjölmiðlum í Argentínu.
Sergio Aguero denied reports that he will come out of retirement to train with Carlos Teves's Independiente.
— ESPN FC (@ESPNFC) February 27, 2024
Tevez recently said he would welcome Aguero with open arms "Even if it's 10 or 15 minutes." pic.twitter.com/TpWyK49eZA
„Stundum býr fólk bara til hluti. Ég vil ítreka það að hjartalæknir minn segir að allt sé í góðu með mig. Það er mikilvægt að heilsan mín sé góð. En að fara að æfa aftur með liði í efstu deild. Ég hefði þurft að fara í fjölda prófa áður en slíkt gerist,“ sagði Aguero.
Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City frá upphafi. Hann hóf hins vegar feril sinn með Independiente.
Aguero hafði grínast með það á Twitch að hann þyrfti að ráðfæra sig við hjartalækninn sinn ef Carlos Tevez, þjálfari Independiente, myndi hringja í hann. Tevez svaraði því að félagið tæki á móti Aguero með opnum örmum.
„Hver myndi ekki vilja hafa Kun? Fyrst sem liðsfélagi og nú sem þjálfari. Jafnvel þótt að það séu bara tíu eða fimmtán mínútur,“ sagði Carlos Tevez.
Allt fór í framhaldinu á mikið flug í argentínskum miðlum en nú hefur Aguero komið hlutunum á hreint. Hann er ekki að fara að spila alvöru fótbolta aftur.