Venezia vann sig upp í 2. sæti Serie B, næstefstu deildar Ítalíu, með þessum sigri. Þeir sitja nú með 51 stig, einu stigi ofar en Cremonese. Það er svo stutt í næstu lið fyrir neðan en Como er með 49 stig í 4. sæti, Palermo með 46 stig í 5. sæti og Catanzaro með 45 stig í 6. sæti.
Christian Gytkjær kom Venezia yfir strax í upphafi og Bjarki Steinn gulltryggði sigurinn með marki á 74. mínútu.
Þetta var annað mark Bjarka Steins á tímabilinu í 21 deildarleik. Hann hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliðinu og kom inn á sem varamaður á 59. mínútu í dag.
Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliðinu, líkt og hann hefur verið í 16 af 27 leikjum liðsins á tímabilinu. Mato Jajalo kom inn í hans stað á 80. mínútu.
Ellefu umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Venezia á erfitt verkefni fyrir höndum næsta sunnudag þegar liðið heimsækir Como.