Haley er síðasti mótframbjóðandi Trumps í Repúblikanaflokknum en hún hefur í raun aldrei átt mögulega á því að velta Trump úr sessi.
Fjölmiðlar vestanhafs segja að Haley muni tilkynna ákvörðun sína í dag en hún virðist tekin í kjölfar slæms gengis hennar á „ofurþriðjudeginum“ svokallaða. Forval fór fram í mörgum ríkjum Bandaríkjanna í gær en Trump bar sigur úr býtum í flestum þeirra. Eina ríkið sem Haley sigraði í var Vermont en sá sigur kom verulega á óvart.
Sjá einnig: Biden og Trump sópuðu að sér kjörmönnum en Haley tók Vermont
Haley hafði áður heitið því að hætta ekki í forvalinu fyrr en í fyrsta lagi eftir ofurþriðjudag. Hún hefur varað Repúblikana við því að fylkja sér að baki Trump og segir hann einungis hugsa um hefnd. Hann hafi hag Bandaríkjanna ekki í huga.
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að Haley hafi verið vinsæl meðal hófsamra og háskólamenntaðra kjósenda Repúblikanaflokksins. Þessir hópar muni líklega spila stóra rullu í forsetakosningunum í nóvember en erfitt sé að segja til um hvort Trump muni ná til þessa fólks og sameina flokk sinn.
Hann lýsti því nýverið yfir að allir þeir sem hafi stutt Haley fjárhagslega yrðu bannaðir frá hreyfingu hans.
Fjölmiðlar ytra segja að Haley ætli sér ekki að lýsa yfir stuðningi við Trump.