Lífið

Enn al­gjör ó­vissa um hvort Hera stígi á svið í Malmö

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hera Björk fór af sigur með hólmi í Söngvakeppninni í ár. Öll önnur ár hefði hún sjálfkrafa farið í Eurovision en árið í ár er öðruvísi.
Hera Björk fór af sigur með hólmi í Söngvakeppninni í ár. Öll önnur ár hefði hún sjálfkrafa farið í Eurovision en árið í ár er öðruvísi. Vísir/Hulda Margrét

Ríkisútvarpið hefur það enn til skoðunar hvort Ísland taki þátt í Eurovision söngvakeppninni í ár. Frestur til þess að skila inn gögnum og þar með skráningu í keppnina rennur út eftir fjóra daga, þann 11. mars.

Þetta kemur fram í svari Rúnars Freys Gíslasonar, framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar við skriflegri fyrirspurn Vísis. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins ákváðu í janúar að ekki yrði tekin ákvörðun um þátttöku Íslands í Eurovision í Svíþjóð fyrr en að lokinni Söngvakeppninni. Þá yrði haft samráð við sigurvegarann og svo tekin ákvörðun um þátttöku Íslands.

Mikill þrýstingur var á forsvarsmenn þess að ákveða að landið úr keppni yrði Ísrael með vegna átaka á Gasa. Þar á meðal var Ríkisútvarpinu afhentur undirskriftarlisti 550 íslenskra tónlistarmanna þar sem farið var fram á að Ísland drægi sig úr keppni ef Ísrael yrði með.

Engin svör um einhug í hópnum

Söngkonan Hera Björk fór með sigur af hólmi í Söngvakeppninni eftir nauman sigur í einvíginu síðustu helgi gegn Bashar Murad. Hún hefur ítrekað lýst því yfir að hún vilji keppa í Eurovision sem fram fer í Malmö í Svíþjóð í maí.

„Út vil ek & tek sko Úllu frænku með mér,“ sagði Hera í viðtölum fyrir keppni. Vísir sendi Rúnari Frey fyrirspurn um það hvort tekin hafi verið ákvörðun um það hvort íslenski hópurinn fari út til Malmö og þá hvort einhugur væri um það í hópnum sem kemur að atriðinu hjá Heru.

„Skilafrestur til að skila inn gögnum til EBU er til 11. mars. Við erum ennþá að skoða málið,“ segir Rúnar í svari sínu til Vísis og á þar við skráningu Íslands í Eurovision.

Ríkisútvarpið var harðlega gagnrýnt í janúar eftir að tilkynnt var að ekki yrði tekin ákvörðun um þátttöku í Eurovision fyrr en að höfðu samráði við sigurvegara Söngvakeppninnar. Stjórnarformaður í Ríkisútvarpinu sagði stjórnendur hafa varpað allri ábyrgð yfir á listafólkið. Þá létu álitsgjafar Ríkisútvarpið heyra það og sögðu einhverjir þeirra „galið“ að leggja ákvörðunina á sigurvegarann.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×