Niemann birti ljósmynd af sér við grafreit Fischers á Selfossi á Instagram á laugardag, 9. mars. Niemann óskar Fischer í færslunni til hamingju með afmælið og segir hann besta skákmeistara allra tíma:
„Þú breyttir tafli eins og enginn annar og varst innblástur fyrir heila kynslóð. Arfleifð þín og áhrif eru ævarandi.“
Vignir Vatnar Stefánsson vinur Niemanns og stórmeistari í skák segir í samtali við fréttastofu að Niemann hafi stoppað stutt á landinu, átt leið hér um og viljað heimsækja leiði Fischers. Þeir félagarnir hafi því gert sér ferð austur fyrir fjall um helgina. Niemann komi ekki til með að taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu sem hefst á föstudag.
Niemann birti í gær myndbandsdagbókarfærslu, svokallað vlog, á Instagram síðu sinni þar sem hann reifar heimsókn sína til landsins. Þar segist hann hafa litið við í Fischersafninu og keypt þar bækur, póstkort og boli svo fátt eitt sé nefnt.