Einbýlishús við Skjólbraut 18 í Vesturbæ Kópavogs var sett á sölu á dögunum. Það var í eigu hjónanna Árna Björns Jónassonar og Guðrúnar Ragnarsdóttur, sem nú eru bæði fallin frá.
Árni var mikill vínáhugamaður og safnaði vínum í um þrjátíu ár. Safnið byrjaði smátt en vatt fljótlega upp á sig. Árni byrjaði á því að innrétta herbergi inni í húsinu undir safnið en þegar það hafði sprungið utan af sér dugði ekkert annað en að byggja tæplega sjötíu fermetra vínkjallara með bílskúr ofan á.
„Þetta var auðvitað algjörlega sturluð hugmynd, en þetta vildi kallinn,“ segir Jónas Árnason, sonur hjónanna.
„Hérna var hann alveg í essinu sínu, og sá aldrei eftir þessari framkvæmd.“
Geymdi tappana og jafnvel miðana
Í dag eru í kringum þúsund flöskur í kjallaranum en þær hafa oft verið fleiri. Að sögn Jónasar var vínið enda ekki keypt til að vera til sýnis, heldur til að njóta.
„Hér voru margar góðar veislur haldnar af foreldrum mínum. Þá var farið hingað niður og eitthvað gott vín valið til að hafa með.“

Árni ferðaðist mikið og greip oftar en ekki með sér nokkrar flöskur heim af ferðalögum. Sú elsta í kjallaranum er frá árinu 1927 en Jónas segir aldurinn ekki endilega merki um gæði.
„Ég var viðstaddur fyrir nokkrum árum þegar hann opnaði vín frá 1929, það var ekki frábært. Svo það er ekki eins og þeir segja að vín verði betra með aldrinum, það eru takmörk.“

Tapparnir voru geymdir, og í kjallaranum má finna stóra tunnu fulla af töppum og aðra ríflega hálfa. En tapparnir voru ekki það eina sem Árni hélt eftir, heldur hafði hann stundum fyrir því að leysa upp miðana á flöskunum og líma í úrklippubók.
„Þar var skrifað niður hvar flaskan var drukkin, með hverjum og hvernig hún bragðaðist. Jafnvel hvaða matur var með og svona. Það var alveg haldin skrá yfir þetta.“
Gæsahúð merki um gott vín
Húsið við Skjólbraut er nú selt en að sögn Jónasar hyggjast nýir eigendur ekki nýta vínkjallarann áfram heldur nota rýmið undir annarskonar tómstundir. Vínsafnið skiptist á milli systkinanna sem erfðu vínáhuga föður síns. En hvað er það sem einkennir gott vín að mati Jónasar?
„Þumalputtareglan er að þegar ég helli í glasið og lykta af því og fæ gæsahúð á hendina, þá er það merki um gott vín.“
