UEFA hefur nú birt 23 manna leikmannahópa liðanna og er Jóhann sá sem er utan hóps hjá Íslandi, af þeim 24 leikmönnum sem Åge Hareide valdi síðasta föstudag.
Það er því ljóst að meiðsli Jóhanns hafa reynst alvarlegri en látið var líta út fyrir á blaðamannafundi og í viðtölum í gær.
Jóhann kvaðst í viðtali í gær hafa fengið högg á lærið og af þeim sökum ekki tekið þátt í æfingu Íslands í vikunni. Hann yrði þó klár í slaginn gegn Ísrael. Nú er ljóst að svo verður ekki.
Mikael Egill Ellertsson er skráður með treyju númer sjö í stað Jóhanns í kvöld.

Leikur Ísraels og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport fimmtudaginn 21. mars 2024. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.