Innlent

Hraun fossar ofan í Melhólsnámu: „Baga­legt“ að missa námuna

Árni Sæberg skrifar
Hraunið hefur náð Melhólsnámu.
Hraunið hefur náð Melhólsnámu. Vísir/Vilhelm

Hraunið sem kemur upp úr eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni fossar nú ofan í Melhólsnámu, sem hefur verið nýtt við gerð varnargarðanna.

Þetta staðfestir Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís. Hann segir bagalegt að missa námuna en efni sé þó til staðar til að hækka varnargarðana.

Greint var frá því í dag að ákveðið hefði verið að hækka varnargarðana norðaustan við Grindavík. 

Ari segir að viðbúið hafi verið að hraunið næði að renna ofan í námuna, fram hjá varnargörðum sem reistir höfðu verið við hana. Undanfarna daga hafi verið unnið að því að moka efni upp úr námunni til notkunar við byggingu varnargarða.

Um hádegisbilið í dag hafi verið ákveðið að fjarlægja allar vinnuvélar úr námunni.

Streymir frá námunni

Ísak Finnbogason, drónamyndatökumaður, er á svæðinu og streymir myndefni úr dróna af hrauninu flæða ofan í námuna. Streymið má sjá í spilaranum hér að neðan. Hægt að er spóla til baka og sjá hraunið brjóta sér leið ofan í námuna. Það gerðist klukkan 19:00.

Unnið hörðum höndum að því að hækka garðana

Ari segir að unnið sé að því að undirbúa hækkun varnargarðana. Verið sé að ýta saman efni og leggja vegi til þess að geta hafist handa við sjálfa hækkunina.

Hann segir þó ekki öruggt að unnt verði að hækka garðana í tæka tíð til þess að koma í veg fyrir að hraun flæði yfir garðana.

„Það vitum við náttúrulega aldrei, en það er þess virði að taka afstöðu núna og hækka garðana til þess að gera það sem hægt er. En það er óvíst hvernig framgangurinn er og hversu mikið flæði kemur og hvenær það kemur að okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×