Trump hefur tekið yfir stjórn landsnefndarinnar, sagt upp fjölda fólks og nú hefur tengdadóttir hans tekið fyrir stjórn hennar.
AP fréttaveitan segir innanbúðarmenn í Repúblikanaflokknum hafa áhyggjur af því hvað þessar breytingar og yfirtaka Trumps á landsnefndinni muni hafa. Bæði Landsnefnd Repúblikanaflokksins og margar undirdeildir innan tiltekinna ríkja hafa átt í fjárhagsvandræðum á undanförnum árum.
Forsetaframbjóðandinn hefur boðið auðugum bakhjörlum Repúblikanaflokksins til Flórída í byrjun apríl á fjáröflunarviðburð. Í smáa letri boðskotranna segir að af öllum þeim fjárveitingum sem auðjöfrarnir heita RNC fari peningarnir fyrst til tveggja aðgerðanefnda Trumps.
Þær taki þær upphæðir sem lögin leyfa af fjárveitingunum eða 6.600 dalir í þann fyrsta og fimm þúsund í þann seinni og RNC og ríkjanefndir Repúblikana fái svo rest, verði eitthvað eftir, samkvæmt frétt New York Times.
Á undanförnum tveimur árum hefur Trump greitt lögmönnum sínum að minnsta kosti 76 milljónir dala. Það samsvarar um 10,5 milljörðum króna.
Þessar pólitísku aðgerðanefndir (e. Super PAC) kallast Trump 47 Committee og Save America.
Sú síðarnefnda er skráð á þann veg að meirihluta þeirra peninga sem safnast þar má ekki verja með beinum hætti til kosningabaráttu. Um 85 prósent af útgjöldum Save America á fyrstu tveimur mánuðum ársins, eða um 8,5 milljónir dala fóru í lögfræðikostnað. Allt síðasta ár var hlutfallið um 89 prósent.
Bilið breikkaði í febrúar
Trump þarf á auknum fjármunum að halda. Í yfirlýsingum til kosningayfirvalda Bandaríkjanna í vikunni kom fram að Joe Biden situr á mun meiri peningum en Trump. Biden á 71 milljón dala í kosningasjóðum sínum, fyrir utan aðgerðanefndir, og Trump á 33,5 milljónir.
Í lok janúar átti Biden 56 milljónir og Trump 30,5 þannig að bilið milli þeirra breikkaði í febrúar.
Sjá einnig: Biden situr á digrum sjóðum en Trump ver fúlgum í lögmenn
Einnig kom fram í gögnunum sem opinberuð voru í vikunni að Save America, áðurnefnd aðgerðanefnd sem Trump notar til að borga lögfræðiskostnaði sinn, eyddi meiri peningum en söfnuðust í febrúar. Nefndin eyddi sjö milljónum dala og þar af 5,6 í lögfræðikostnað í febrúar.