Fótbolti

Kærir borgar­stjóra fyrir að ráðast á son sinn á krakka­móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Conceicao á hliðarlínunni með Porto liðinu í Meistaradeildinni.
Sergio Conceicao á hliðarlínunni með Porto liðinu í Meistaradeildinni. AP/Zac Goodwin

Sérgio Conceicao, stjóri Porto, kom sér í fréttirnar eftir samskipti sín við Mikel Arteta á dögunum en um helgina var hann hins vegar að skapa usla á krakkamóti á Spáni. Conceicao er þó allt annað en sáttur með lýsingu spænsks borgarstjóra á atvikum málsins.

Conceicao hefur gengið svo langt að kæra borgarstjórann vegna slagsmála eftir leik hjá níu ára börnum. Borgarstjórinn sagði frá því sem gerðist í viðtali við fjölmiðla og Porto þjálfarinn kom ekki vel út úr því.

Borgarstjórinn sakaði Conceicao um það að slá dómara, hann sjálfan og spænska lögreglumenn. Conceicao brást við því að kæra borgarstjórann fyrir að hrinda syni sínum. Lögreglan staðfestir að það hafi verið lögð inn kæra. ESPN segir frá.

Sonurinn sem borgarstjórinn hrinti, var ekki að keppa á mótinu, en það var aftur á móti annar níu ára sonur Conceicao.

Samkvæmt upplýsingum frá Porto þá strunsaði Conceicao inn á völlinn eftir leik til að spyrja dómarann um atvik. Atvik þetta gerði foreldra margra sorgmædda eftir að hafa horft upp á vonbrigðin í augum barna sinna eins og Porto orðar það í yfirlýsingu sinni.

Um leið og Conceicao fór inn á völlinn þá átti borgarstjórinn, Manuel Barroso að nafni, að hafa hrint einum syni hans. Conceicao segist hafa stigið á milli og passað upp á það að borgarstjórinn réðist ekki aftur á son hans. Atvikið náðist á mynd og er hér fyrir ofan.

Níu ára lið Porto var að spila í Ganafote barnamótinu en þar mætast krakkalið frá mörgum þjóðum í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×