Í frumvarpinu, sem finna má hér á vef Alþingis, segir að Þórdísi R. Kolbrúnu Gylfadóttur, fjármála og efnahagsráðherra, verði heimilt að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka að fullu eða að hluta til, að fenginni heimild í fjárlögum. Það verði gert með útboði sem opið eigi að vera bæði almennum fjárfestum og fagfjárfestum.
Íslandsbanki var að fullu í eigu ríkisins þar til hann seldi hluti til almennings og fjárfesta á árunum 2021 og 22. Eftir á ríkið 42,5 prósent í bankanum.
Sjá einnig: Frumvarp um sölu á restinni af Íslandsbanka komið fram
Við söluna verður tilboðsbókum svokölluðum skipti í tvo hluta. Tilboðsbók A og bók B og skal A hafa forgang við úthlutun hluta eftir útboðið en sá hluti snýr að sölu til einstaklinga.
Tilboðsbók A á að taka við tilboðum á föstu verði sem verður meðalvirði hlutabréfa í Íslandsbanka síðustu fimmtán daga fyrir birtingu útboðslýsingarinnar. Hana á að birta að minnsta kosti tveimur dögum fyrir útboðið.
Einstaklingum verður heimilt að gera tilboð frá hundrað þúsund krónum til tuttugu milljóna.
Þá segir í frumvarpinu að verði eftirspurn meiri en framboð og skerða þurfi áskriftir eigi að gera það hlutfallslega en ekki eigi að skerða áskriftir niður fyrir tvær milljónir króna.
Þegar kemur að tilboðsbók B verða tilboð umfram tuttugu milljónir heimil en söluverðið á að vera lægsta tilboðsverð sem nær heildarmagni útboðsins en þó ekki lægra en fasta verðið í tilboðsbók A.
Skerðingar í B-bókinni eiga að vera á grundvelli tilboðsverðs. Það er að segja að lægstu tilboðin verði skert fyrst, nema annað reynist nauðsynlegt og þá á að skerða úthlutun hlutfallslega.
Ekki verður tekið við tilboðum háðum fyrirvörum né tilboðum frá aðilum sem hafa verið með tilkynnta skortstöðu í Íslandsbanka síðustu þrjátíu daga fyrir útboðið.