Fótbolti

Segir von á mikil­vægum til­boðum í Albert

Aron Guðmundsson skrifar
Albert Guðmundsson hefur farið á kostum inn á knattspyrnuvellinum á yfirstandandi tímabili 
Albert Guðmundsson hefur farið á kostum inn á knattspyrnuvellinum á yfirstandandi tímabili  David Balogh - UEFA/UEFA via Getty Images

Fé­lags­skipta­sér­fræðingurinn Fabrizio Roma­no segir frá því í morgun í færslu á sam­fé­lags­miðlinum X að for­ráða­menn Genoa búist við nokkrum til­boðum frá öðrum fé­lögum í ís­lenska lands­liðs­manninn Albert Guð­munds­son, sem farið hefur á kostum bæði með liði Genoa og nú síðustu daga með ís­lenska lands­liðinu.

Albert hefur verið einn besti, ef ekki besti leikmaður Genoa á yfirstandandi tímabili þar sem að hann hefur komið að sextán mörkum fyrir félagið í tuttugu og níu leikjum. Skorað tólf mörk, lagt upp fjögur. 

Slík frammistaða vekji skiljanlega áhuga annarra liða á kröftum Íslendingsins. Undanfarnar vikur hefur verið greint frá því að stórlið á borð við Inter Milan, Juventus og Tottenham renni hýru auga til Alberts. 

Frammistaða hans undanfarna daga með íslenska landsliðinu geta síðan ekki annað en að hafa kynnt undir áhuga á þessara liða. Albert fór á kostum með íslenska landsliðinu í umspili um laust sæti á EM. Hann skoraði þrennu í 4-1 sigri liðsins gegn Ísrael í undanúrslitum og svo eina mark Íslands í 2-1 tapi gegn Úkraínu í sjálfum úrslitaleiknum.

„Genoa býst við mikilvægum tilboðum í Albert Guðmundsson í sumar eftir frábært tímabil hans. Formlegar viðræður við önnur lið hafa þó ekki átt sér stað enn,“ skrifar Romano, sem setur ekki færslu fram á samfélagsmiðlum nema að vera alveg klár á því að upplýsingarnar sem þar koma fram séu réttar. 

Enn fremur skrifar Romano að verðmiðinn á Alberti sé talinn vera um tuttugu og fimm til þrjátíu milljónir evra. Það jafngildir um og yfir fjórum og hálfum milljarði íslenskra króna. 

Þá sé Genoa einnig opið fyrir skiptidílum við félög þess efnis að fá inn annan leikmann í stað Alberts auk kaupverðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×