Körfubolti

Þórsara dreymir um heima­vallar­rétt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tómas Valur skoraði 14 stig í kvöld.
Tómas Valur skoraði 14 stig í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Þór Þorlákshöfn lagði botnlið Hamars í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfubolta. Sigurinn þýðir að Þórsarar geta enn náð heimavallarrétti í úrslitakeppninni. Lokatölur í Hveragerði 96-104.

Þó svo að Þór væri sigurstranglegra fyrir leik er aldrei að vita með nágrannaslagi sem þessa. Það var þó snemma ljóst hvorum megin sigurinn myndi lenda en segja má að Þórsarar hafi gert út um leikinn strax í fyrsta leikhluta, staðan að honum loknum 12-35.

Heimamenn sýndu þó klærnar í öðrum leikhluta sem þeir unnu með tíu stiga, staðan 41-54 í hálfleik. Í þriðja leikhluta voru það aftur Þórsarar sem voru sterkari aðilinn áður en heimamenn klóruðu í bakkann í fjórða og síðasta fjórðung leiksins, lokatölur 96-104.

Franck Kamgain var stigahæstur í liði Hamars með 29 stig ásamt því að gefa 11 stoðsendingar og taka 5 fráköst. Þar á eftir kom Dragos Andrei Diculescu með 23 stig. Í liði gestanna var Nigel Pruitt með 23 stig og 9 fráköst. Þá skoraði Darwin Davis 21 stig.

Þór Þ. með 14 sigra í 21 leik, líkt og Grindavík. Hamar er með einn sigur að loknum jafn mörgum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×