Körfubolti

Kallaði dómarana og fjöl­skyldur þeirra tíkur

Siggeir Ævarsson skrifar
Kelly Oubre Jr. er leikmaður 76ers
Kelly Oubre Jr. er leikmaður 76ers Mike Mulholland/Getty Images

Kelly Oubre Jr., leikmaður 76ers í NBA-deildinni, vandaði dómurunum í leik 76ers og Clippers aðfararnótt fimmtudags ekki kveðjunnar en hann kallaði hvern og einn þeirra tík og nokkra úr stjórfjölskyldum þeirra einnig.

Leikurinn var æsispennandi en þegar 15 sekúndur voru eftir keyrði Kawhi Leonard, leikmaður Clippers, á körfuna og sótti körfu og villu á Oubre. Hann var augljóslega ósáttur með dóminn en þetta var þó aðeins upphitun fyrir það sem á eftir kom.

Leonard kom Clippers einu stigi yfir og í næstu sókn keyrði Oubre á körfuna. Þar vildi hann fá villu en í staðinn var dæmt uppkast. Aftur náðu 76ers boltanum og aftur keyrði Oubre á körfuna og jú, þið giskuð á það, aftur var ekkert dæmt og sigurinn rann 76ers úr greipum.

Nick Nurse, þjálfari 76ers, var algjörlega brjálaður í leikslok og lét dómarana heyra það ásamt Oubre og uppskáru þeir báðir 50.000 dollara sekt að launum. Orðin sem Oubre valdi hafa þó vakið töluverða athygli en hann gekk upp að hverjum dómara og sagði: „You a bitch!“ - eða „Þú ert tík!“

Til þess að setja punktinn svo yfir i-ið og koma skoðunum sína fyllilega á framfæri bætti hann svo við: „Ya mom’s a bitch. Your dad’s a bitch. Your grandma’s a bitch.“ - Eða á okkar ástkæra ylhýra: „Mamma þín er tík. Pabbi þinn er tík. Amma þín er tík.“

Oubre uppskar eins og áður sagði 50.000 dollara sekt fyrir dónaskapinn, sem samsvarar um sjö milljónum íslenskra króna. Oubre er þó með rúmar 400 milljónir í árslaun svo að mögulega fannst honum þessum peningum vel varið í ljósi aðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×