Körfubolti

Eitt­hvað verður undan að láta í Texas

Siggeir Ævarsson skrifar
Luka Doncic er kominn í 2. sætið á MVP kandídatalistanum eftir frammistöðu síðustu daga
Luka Doncic er kominn í 2. sætið á MVP kandídatalistanum eftir frammistöðu síðustu daga vísir/Getty

Tvö heitustu lið NBA-deildarinnar mætast í kvöld klukkan 23:00 þegar Dallas Mavericks sækja Houston Rockets heim. Heimamenn í Houston hafa unnið ellefu leiki í röð en Dallas sex.

Það er því ljóst að sigurgöngunni lýkur hjá öðru hvoru Texas-liðinu í nótt en bæði lið þurfa nauðsynlega á sigri að halda. Hið unga lið Rockets er í harði baráttu um síðasta sætið í umspilinu fyrir úrslitakeppnina með einum sigurleik minna en Golden State Warriors sem sitja í 10. sætinu. 

Liðin í 7. - 10. sæti fara í svokallað "play-in" umspil um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni. Í 6. sætinu sitja Dallas Mavericks, örlítið á undan Phoenix Suns. Sigur í Houston í kvöld myndi koma þeim í góða stöðu fyrir lokasprettinn en flest liðin eiga um átta leiki eftir.

Luka Doncic leiðir lið Dallas í flestum tölfræðiflokkum. Í síðustu tíu leikjum hefur hann skorað 29,4 stig að meðaltali, gefið rétt rúmar tíu stoðsendingar og tekið rétt tæp tíu fráköst.

Rockets misstu einn sinn besta leikmann, Alperen Şengün, í meiðsli fyrr í mánuðinum en Jalen Green hefur heldur betur stigið upp í hans fjarveru. Í síðustu tíu leikjum er hann með 30,5 stig að meðaltali, sjö fráköst og fjórar stoðsendingar.

Bæði lið fengu eins dags hvíld og ættu því að mæta fersk til leiks í kvöld þar sem baráttan um Texas verður leidd til lykta.


Tengdar fréttir

Um „slags­málin“ í leik Utah og Hou­ston: „Er ungt og leikur sér“

Leikur Houston Rockets og Utah Jazz í NBA-deildinni í körfubolta er til umræðu í þætti kvöldsins af Lögmál leiksins. Aðallega eru þó verið að ræða „slagsmálin“ sem orsökuðu að Kris Dunn og Jabari Smith Jr. voru báðir dæmdir í leikbann. Dunn fer í tveggja leikja bann en Jabari eins leikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×