Enski boltinn

Meiðsla­vand­ræði Man United ætla engan endi að taka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martraðartímabil Martínez heldur áfram.
Martraðartímabil Martínez heldur áfram. Michael Regan/Getty Images

Það á ekki af Manchester United að ganga á þessari leiktíð en nú er ljóst að Victor Lindelöf og Lisandro Martínez verða frá næsta mánuðinn vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir í leik gegn Brentford á dögunum.

Man United gerði 1-1 jafntefli við Brentford í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Mason Mount kom Man Utd yfir í uppbótartíma en þrátt fyrir það tókst Brentford að jafna. Þegar þarna var komið við sögu hafði Man Utd misst tvo varnarmenn af velli.

Raphaël Varane fór út af í hálfleik og Victor Lindelöf fór meiddur af velli á 69. mínútu. Í hans stað kom Argentínumaðurinn Lisandro Martínez en hann hafði ekki spilað síðan hann varð fyrir hnémeiðslum í 3-0 sigrinum á West Ham United þann 4. febrúar síðastliðinn.

Það virðist sem Martínez hafi snúið alltof snemma til baka en nú hefur fengist staðfest að hann verður frá næsta mánuðinn vegna vöðvameiðsla. Sama er að segja um Victor Lindelöf sem meiddist aftan í læri í leiknum.

Ekki virðist sem Varane hafi meiðst alvarlega en ekki hefur verið gefið út hvort hann missi af næstu leikjum liðsins. Þetta er enn eitt áfallið sem Man Utd verður fyrir en segja má á að það sé bölvun á varnarmönnum liðsins.

Tyrell Malacia á enn eftir að spila leik, Martínez var að meiðast í þriðja sinn og hefur aðeins komið við sögu í 11 leikjum, Luke Shaw hefur aðeins komið við sögu í 15 leikjum og Aaron Wan-Bissaka 19 talsins. Þá hafa bæði Harry Maguire og Varane misst af fjölda leikja vegna meiðsla.

Man United situr sem stendur í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en er í harðri baráttu við Tottenham Hotspur og Aston Villa um 5. sætið sem gæti gefið sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×