Enski boltinn

Ó­víst hvort Nkunku verði meira með á leik­tíðinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nkunku hefur ekki átt sjö dagana sæla.
Nkunku hefur ekki átt sjö dagana sæla. Vísir/Getty

Fyrsta tímabil Christopher Nkunku í ensku úrvalsdeildinni fer seint í sögubækurnar. Hann hefur verið meira og minna meiddur síðan hann gekk í raðir Chelsea frá RB Leipzig og verður líklega ekki meira með það sem eftir lifir leiktíðar.

Nkunku gekk í raðir Chelsea síðasta sumar en félagið var fyrir löngu búið að tryggja sér krafta hans. Segja má að Chelsea-liðið sem hann gekk til liðs við hafi ekki verið sama lið og keypti hann þónokkrum mánuðum fyrr.

Til að bæta gráu ofan á svart meiddist Nkunku á undirbúningstímabilinu og var meiddur allt til aðfangadags þegar hann skoraði í 2-1 tapi gegn Úlfunum. Hann tók þátt í þremur deildarleikjum áður en hann missti af leik vegna meiðsla á mjöðm.

Hann tók síðan þátt í fjórum leikjum til viðbótar áður en hann meiddist á ný. Nú hefur Mauricio Pochettino, þjálfari Chelsea, opinberað að hann hafi ekki mikla trú á að Nkunku verði meira með á leiktíðinni.

Allt í allt hefur Nkunku tekið þátt í 10 leikjum á leiktíðinni en þó aðeins spilað 396 mínútur og skorað tvö mörk. Chelsea er sem stendur í 12. sæti með 40 stig eftir 28 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×