Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ætli ég vakni ekki að jafnaði upp úr klukkan sjö. Með hækkandi sól þá verð ég meiri A manneskja en þegar haustar þá verð ég svona B+ manneskja.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Ég er ótrúlega vel gift honum Obba sem er A-manneskja fram í fingurgóma. Hans fyrsta verk er að hella upp á og nýt ég góðs af því og fæ alltaf rjúkandi heitt rjómakaffi í rúmið og D-vítamín. Þegar ég hefi lokið við bollann fer ég fram í eldhús og fæ mér einn skammt af kreatíni og svo eina blöndu af Bimuno forgerlum.
Því næst þarf að vekja unglinginn á heimilinu … það þarf að vanda sig við það.
Eftir það taka við hefðbundin morgunverk og það síðasta áður en ég mæti til vinnu er að skutla einkadótturinni í MS.“
Hvaða árstíð finnst þér skemmtilegust?
Á mínu heimili er ekki talað um árstíðir heldur í tímabil og er árinu skipt í körfuboltatímabil og fótboltatímabil. Ég fer mikið á leiki í þessum íþróttum, hjá meistaraflokki kvenna í Þrótti og meistaraflokki karla í KR en þar spila krakkarnir mínir.
Og því tengdu hafa vorin verið í miklu uppáhaldi sl. ár hjá fjölskyldunni og vorum við ótrúlega dekruð frá árinu 2007 af gullaldarliði KR í körfunni og fylgdumst með úrslitakeppninni ár eftir ár og titlum fara á loft. KR er sem betur fer að rétta úr kútnum og er komið aftur í deild þeirra bestu.
Svo jafnast ekkert á við andvökubirtuna á Íslandi og þá er gaman að taka aðeins í kylfurnar og reyna að lækka forgjöfina.
Ég er sem sagt að segja að allar árstíðir hafi sinni sjarma en veturnir kannski sístir þó ég eigi afmæli daginn eftir vetrarsólstöður og daginn lengi um það bil um fjórar mínútur á afmælinu mínu það þarf að gleðjast yfir litlu hlutunum.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnin sem ég sinni fyrir Viðskiptafræðstofnun eru ótrúlega fjölbreytt. Skólaárið er aldrei eins og er takturinn í árinu eins fjölbreyttur og nemarnir. Ég er til dæmis nýkomin úr heimsókn til YALE háskólans í BNA en þangað fylgdi ég hópi MBA nema á námskeið hjá skólanum.
Núna erum við að fullu að kynna námið og taka viðtöl við væntanlega nemendur. Ég á ekki von á öðru en að frábært hópur af Executive MBA nemum hefji nám í haust“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég reyni að nota outlook sem mest og ef fundur er ekki í outlook þá átti hann sér ekki stað! Svo deilum við hjónin google calendar svona til að ganga í þokkalegum takti.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég held að ég sé sofnuð oftast um klukkan ellefu á kvöldin þó að það dragist öðru hvoru yfir góðri seríu eða TikTok.“