Formenn stjórnarflokkanna funda enn og hafa ekki greint þjóðinni frá hver muni taka við ráðherrastól Katrínar. Þó tjáðu þeir forsetanum að þeir hyggist halda stjórnarsamstarfi áfram undir forystu nýs ráðherra.
Guðni segist skilja á máli formannanna þriggja að von sé á að skamman tíma muni taka að mynda ríkisstjórn. „Við skulum bara sjá til,“ segir hann spurður að því hversu lengi hann leyfi formönnunum að ræða saman áður en hann tekur í taumana.
„Nú liggur þessi staða fyrir og þá liggur beinast við að við bíðum eftir því hver niðurstaða verður hjá þeim flokkum sem ræða saman framhaldið. Ég hef leitað upplýsinga á hvernig þetta gengur og ég er mjög bjartsýn á það að þetta skýrist innan skamms,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.
„Ég á von á því að línur muni skýrast á allra næstu dögum.“
Katrín segist samt sem áður munu segja af sér þingmennskunni á morgun þrátt fyrir að hún muni sitja áfram sem forsætisráðherra. Því gæti sú staða komið upp á teninginn ef stjórnarflokkarnir komast ekki að niðurstöðu fyrir morgundaginn að sitjandi forsætisráðherra sitji ekki á þingi.
Yfirlýsingu Guðna Th. Jóhannessonar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
Svo hljóðar yfirlýsing mín: Fyrr í dag gekk Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fund minn og baðst lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti. Ég samþykkti þá lausnarbeiðni en fól forsætisráðherra og ráðuneyti hennar að sitja áfram uns ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í samræmi við stjórnskipun landsins. Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga aðild að núverandi ríkisstjórn hafa tjáð mér að þeir hafi hug á að halda stjórnarsamstarfi áfram undir forystu nýs ráðherra. Þess má vænta að senn komi í ljós hver það verður.