Um var að ræða vél í eigu Southwest Airlines sem var að taka á loft frá alþjóðaflugvellinum í Denver í gær þegar atvikið átti sér stað. Vélin lenti örugglega á vellinum 25 mínútum eftir flugtak en á myndskeiðum má sjá hlífina blakta í vindinum.
135 farþegar og sex áhafnarmeðlimir voru um borð. Engan sakaði.
Engine cowling on Southwest Airlines Boeing plane falls off during take-off video https://t.co/8uvOBMmXG5
— The Guardian (@guardian) April 8, 2024
Samkvæmt Southwest Airlines er nú verið að skoða vélina en hún var tekin í notkun árið 2015. Flugfélagið hefur neitað því að svara hvenær síðasta öryggisskoðun fór fram.
Boeing flugvélaframleiðandinn hefur ekki átt sjö dagana sæla en ýmsar bilanir sem hafa orðið í vélum félagsins hafa ratað í fréttirnar síðustu misseri og raunar ár. Nú síðast voru Max 9 vélar fyrirtækisins í Bandaríkjunum kyrrsettar í kjölfar þess að hurðarlok losnaði í miðju flugi.
Fjöldi hópmálsókna hefur verið höfðaður á hendur fyrirtækinu vegna atviksins.
Þá vekur athygli að flugmálayfirvöld vestanhafs rannsaka nú einnig að minnsta kosti þrjú önnur tilvik þar sem Boeing-vélum í eigu Southwest Airlines var snúið við eftir að áhöfnin tilkynnti um vélarbilun.