Sjónvarpsmaðurinn upplýsir um þetta á Instagram. Eins og Vísir hefur áður greint frá var óvissa uppi um það hvort Gísli yrði kynnir líkt og undanfarin ár. Áður hefur komið fram að Felix Bergsson verður ekki fararstjóri íslenska hópsins vegna forsetaframboðs og verður Rúnar Freyr Gíslason fararstjóri hans í stað.
Gísli Marteinn segir á Instagram að fyrir sér snúist Eurovision um stemningu og gleði. „Fyrir mér snýst Eurovision um stemningu og gleði og ég finn fyrir hvorugu í keppninni í ár.“
Gísli Marteinn hefur grínast með þátttöku Íslands í Eurovision í föstudagsþáttum sínum og verið opinskár vegna hamfaranna fyrir botni Miðjarðarhafs á samfélagsmiðlinum X. Vísir reyndi í mars að ná tali af Gísla vegna málsins, án árangurs.
Tilkynningu Gísla Marteins í heild má sjá að neðan:
„Til að svara þeim sem hafa spurt: Ég mun ekki lýsa Eurovision í ár. Ástæðan er framganga Ísraels á Gaza og viðbrögð keppninnar við henni, aðallega skortur á þeim. Fyrir mér snýst Eurovision um stemningu og gleði og ég finn fyrir hvorugu í keppninni í ár.“