Fótbolti

Unun að horfa á Cubarsí: „Ég var að falla á þriðja bílprófinu þegar ég var sau­tján“

Sindri Sverrisson skrifar
Pau Cubarsí reynir að stöðva einn albesta leikmann heims, Kylian Mbappé, í París í gærkvöld.
Pau Cubarsí reynir að stöðva einn albesta leikmann heims, Kylian Mbappé, í París í gærkvöld. Getty/Matthieu Mirville

Pau Cubarsí, 17 ára miðvörður Barcelona, var til umræðu í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport 2 í gærkvöld, eftir leikinn við PSG í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Cubarsí vann sig inn í byrjunarlið Barcelona í byrjun þessa árs, nýorðinn 17 ára, og sérfræðingarnir gátu ekki annað en heillast af honum gegn stjörnum PSG í París í gær.

„Hann er 17 ára. Ég var að falla á þriðja bóklega bílprófinu þegar ég var 17 ára. Það er eins og hann sé búinn að vera að spila í 15 ár í hjarta varnarinnar, sendingarnar og leikskilningurinn eru þannig,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason þáttastjórnandi. Aron Jóhannsson og Jóhannes Karl Guðjónsson voru á sama máli.

„Þegar ungir leikmenn eru að koma upp þá eru þetta oftast framherjar eða kantmenn, eða alla vega ekki alveg hafsentar. Að svona ungur strákur geti komið og spilað á hæsta mögulega stigi fótboltans, sem hafsent, á móti PSG, það er algjör unun að horfa á þetta. Þetta er nýi uppáhalds leikmaðurinn minn,“ sagði Aron.

„Ákvörðunartakan, eins og í fyrsta markinu, þegar hann spilar út allt PSG-liðið með einni sendingu, gegnum línuna og upp til Lewandowski… ákvörðunartökurnar eru svo góðar. Hann er 17 ára og virðist ekkert tröll af manni, er samt líkamlega sterkur og þokkalega fljótur, en hann er ekkert hræddur við að verjast einn á móti einum. Hann er ískaldur,“ sagði Jóhannes Karl en umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Umræða um Cubarsi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×