Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með tveimur leikjum sunnudaginn 21. apríl.
Íþróttadeild spáir Víkingi 7. sæti Bestu deildarinnar í sumar og nýliðarnir haldi sér uppi.
Síðasta sumar var draumi líkast í Víkinni en karla- og kvennalið félagsins unnu þrjá af fjórum stóru titlunum sem í boði voru.
Kvennalið Víkings skrifaði sig á spjöld sögunnar með því að verða fyrsta B-deildarliðið til að verða bikarmeistari. Víkingar unnu Blika, 3-1, í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Til að toppa sumarið vann Víkingur svo einnig Lengjudeildina og tryggði sér það með sæti í Bestu deildinni.

Margar stjörnur urðu til hjá Víkingi á síðasta tímabili. Má þar nefna markvörðinn unga Sigurborgu Kötlu Sveinbjörnsdóttur, hægri bakvörðinn Emmu Steinsen Jónsdóttur, hinar markheppnu Bergdísi Sveinsdóttur og Sigdísi Evu Bárðardóttur. Og svo auðvitað fyrirliðann Nadíu Atladóttur sem skoraði tvö mörk í bikarúrslitaleiknum.
Hún er hins vegar horfin á braut en fyrir nokkrum dögum var samningi hennar við Víking rift og hún gekk í kjölfarið í raðir Vals. Það er mikill missir af Nadíu, bæði sem leikmanni, leiðtoga og eins konar andliti liðsins.

Víkingur saknaði hennar þó ekki í Meistarakeppni KSÍ þar sem liðið vann Íslandsmeistara Vals í vítaspyrnukeppni. Víkingur vann einnig Reykjavíkurmótið og vann því tvo af þremur titlum sem í boði voru í vetur.
Í vetur fékk Víkingur tvo leikmenn frá KR, Kristínu Erlu Ó. Johnsen og Gígju Valgerði Harðardóttur, markvörðinn Birtu Guðlaugsdóttur frá Val, Mist Elíasdóttur frá Fram og svo Shainu Ashouri sem lék svo vel með FH á síðasta tímabili. Svo bættist bandaríski varnarmaðurinn Ruby Diodati við hóp Víkings í síðustu viku.
Í liði Víkings er ágætis blanda af yngri og lofandi leikmönnum annars vegar og eldri og reyndari hins vegar. Ljóst er að mikið mun mæða á Ernu Guðrúnu Magnúsdóttur og Selmu Dögg Björgvinsdóttur. Þær hafa reynslu úr Bestu deildinni og reyndust Víkingi frábærlega í fyrra.
Lykilmenn
- Erna Guðrún Magnúsdóttir, 26 ára varnarmaður
- Selma Dögg Björgvinsdóttir, 26 ára miðjumaður
- Sigdís Eva Bárðardóttir, 17 ára sóknarmaður
Fylgist með
Áðurnefnd Sigurborg Katla átti frábært sumar í marki Víkings í fyrra og sló í gegn. Hún er fædd 2006 og er einn af mörgum efnilegum markvörðum sem við eigum. Sigurborg Katla fær mikla eldskírn í sumar verður að eiga gott tímabil ef Víkingur ætlar að gera sig gildandi í deild þeirra bestu.
Í besta/versta falli
Víkingur ætti að vera með nógu sterkt lið til að sleppa við mestu fallbaráttuna en það virðist standa Tindastóli, Fylki og Keflavík framar. Víkingar leyfa sér svo alveg örugglega um að dreyma og vonast til að meðbyrinn frá síðasta tímabili og sigrinum í Meistarakeppninni fleyti þeim inn í úrslitakeppni efri hlutans.