Körfubolti

Loka­um­ferð NBA-deildarinnar aldrei verið jafn spennandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James og félagar þurfa sigur til að halda í 8. sætið.
LeBron James og félagar þurfa sigur til að halda í 8. sætið. Justin Ford/Getty Images

Í kvöld fer 82. og síðasta umferð deildarkeppni NBA-deildarinnar í körfubolta fram. Eins ótrúlega og það hljómar þá er fjöldi leikja sem skipta enn máli enda gríðarlega margt sem getur breyst eftir lokaumferðina.

NBA-leiktíðin hefur verið æsispennandi og reikna má með að úrslitakeppnin verði áframhald á því. Fyrst þarf þó að fara í gegnum umspilið en enn er alls óvíst hvaða lið enda í 7. til 10. sæti, umspilssætunum sjálfum.

Klukkan 19.30 er leikur New Orleans Pelicans og Los Angeles Lakers á dagskrá Stöð 2 Sport. Er leikurinn sýndur á ESport rásinni vegna fjölda beinna útsendinga.

LeBron James og félagar í Lakers eru sem stendur í 8. sæti en geta fallið niður í 9. eða 10. sæti með tapi. Pelicans eru á sama tíma í 6. sæti en gætu fallið niður 7. sæti – og þar með í umspilssæti – með tapi. Það er því nóg undir í New Orleans í kvöld.

Hvaða aðra leiki sem tengjast umspilssætum varðar:

  • Brooklyn Nets tekur á móti Philadelphia 76ers. Gestirnir gætu fallið niður í umspilssæti í Austrinu. 76ers er sem stendur í 6. sæti með sama sigurhlutfall og Indiana Pacers.
  • Milwaukee Bucks tekur á móti Orlando Magic. Bucks þurfa sigur til að tryggja sér 2. sætið í Austrinu á meðan Magic gæti fallið niður í umspilssæti með tapi.
  • Toronto Raptors tekur á móti Miami Heat. Gestirnir eiga enn möguleika á að komast úr umspilssæti en þeir eru sem stendur í 8. sæti, einum sigri frá Pacers og 76ers.
  • Pacers heimsækja Atlanta Hawks og þurfa sigur til að forðast umspilið.
  • Sacramento Kings heimsækja Portland Trail Blazers. Kóngarnir eiga enn möguleika á 8. sæti sem þýðir að þeir þurfa aðeins einn sigur í umspilinu til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.
  • Golden State Warriors mæta Utah Jazz í þeirri von um að tryggja sér 8. sætið í Vestrinu.
  • Phoenix Suns fær Minnesota Timberwolves í heimsókn. Gestirnir geta enn unnið Vesturdeildina en Sólirnar geta með sigri komist beint inn í úrslitakeppnina og sleppt umspilinu.

Umspilið í NBA virkar þannig að liðin í 7. og 8. sæti mætast innbyrðis. Sigurvegarinn úr þeirri viðureign fer í úrslitakeppnina sem liðið í 7. sæti og mætir því liðinu í 2. sæti.

Liðin í 9. og 10. sæti mætast einnig innbyrðis, liðið sem tapar fellur úr leik á meðan sigurvegarinn mætir tapliðinu úr viðureign liðanna í 7. og 8. sæti. Sigurvegarinn úr þeim leik fær síðasta sætið í úrslitakeppninni og mætir því liðinu sem sigraði deildina.

Á meðan Boston Celtics hefur nú þegar tryggt sér 1. sæti Austurdeildar geta þrjú lið farið með sigur af hólmi í Vestrinu; Oklahoma City Thunder, Timberwolves og Denver Nuggets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×