Fótbolti

Mót­mæli knatt­spyrnu­kvennanna báru árangur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Corinthians stóðu með leikmönnum í liði mótherjanna. Kleiton Lima hefur sagt starfi sínu lausu.
Leikmenn Corinthians stóðu með leikmönnum í liði mótherjanna. Kleiton Lima hefur sagt starfi sínu lausu. Getty&@corinthiansfutebolfeminino

Kleiton Lima, þjálfari brasilíska félagsins Santos, hefur sagt starfi sínu lausu eftir að mótmæli leikmanna annarra liða báru árangur.

Lima fékk að snúa aftur til starfa þrátt fyrir að nítján leikmenn hans höfðu sakað hann um áreitni. Það gerðu þær í nafnlausum bréfum í brasilíska fjölmiðlinum Globo Ge. Leikmenn ásökuðu Lima um stöðuga áreitni (e. harrassment). Eftir innanhússrannsókn hjá félaginu þá var ekkert gert í málinu og Lima fékk að setjast á ný í þjálfarastólinn.

Þetta voru ekki einn eða tveir leikmenn heldur næstum því tuttugu. Því skildu fáir í því hvernig rannsókn á málinu hafði engu breytt fyrir hans stöðu sem þjálfari liðsins.

Lima var mættur aftur á hliðarlínuna í leik á móti Corinthians á föstudagskvöldið. Til að mótmæla þessu þá héldu leikmenn Corinthians, andstæðinga Santos í leiknum, fyrir eyru sín og munn á meðan þjóðsöngurinn var spilaður.

Mótmæli knattspyrnukvennanna vöktu heimsathygli og þau báru líka árangur.

„Til að verja fjölskyldu sína, heilindi sín sjálfs og Santos félagið þá hefur Kleiton Lima beðið um að fá lausn frá störfum sínum,“ sagði í yfirlýsingu frá Santos.

Santos sagði einnig frá því að Lima hefði fengið morðhótanir vegna ásakananna en að málinu væri lokið. Wesly Otoni mun taka við þjálfun liðsins tímabundið.

Einn íslenskur leikmaður hefur spilað undir stjórn Lima hjá Santos en Þórunn Helga Jónsdóttir lék fyrir Santos liðið frá 2008 til 2011. Hún vann nokkra titla með brasilíska félaginu þar á meðal Suður-Ameríkumeistari í tvígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×