Innlent

Fleiri gifta sig hjá sýslu­manni en í kirkju

Bjarki Sigurðsson skrifar
Það verður sífellt vinsælla að gifta sig hjá sýslumanni.
Það verður sífellt vinsælla að gifta sig hjá sýslumanni. Vísir/Vilhelm

Árið 2023 stofnuðu 2.095 manns til hjúskapar hjá sýslumanni en 1.650 manns hjá Þjóðkirkjunni. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem fleiri ganga í hjónaband þar en í kirkjunni.  

Þetta kemur fram í nýjum gögnum Þjóðskrár sem birt voru í dag. Árið 2023 stofnuðu 4.870 einstaklingar til hjúskapar hér á landi. 43 prósent þeirra hjá sýslumönnum, 34 prósent hjá Þjóðkirkjunni, tólf prósent hjá öðrum trúfélögum og ellefu prósent erlendis. Þjóðskrá skráir ekki hvar þeir gifta sig sem gera það hjá öðrum trúfélögum en Þjóðkirkjunni.

Hlutfallslega gengu flestir íbúar Austurlands í hjónaband á síðasta ári, 12,86 af hverjum þúsund manns. Lægst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 6,81 af hverjum þúsund gengu í hjónaband á síðasta ári. 

Í ár var einnig metár í fjölda þeirra sem gengu í hjónaband. Á þessari öld höfðu flestir gift sig árið 2022, eða 4.800 talsins. Metið er því slegið um sjötíu manns á þessu ári. 

Árið 2023 var einnig metár á þessari öld þegar kemur að skilnaði. 1.749 einstaklingar gengu frá lögskilnaði hér á landi á síðasta ári. Flestir gerðu það hjá sýslumanni, eða 1.625 einstaklingar, en hundrað gerðu það erlendis og átján fyrir dómi.

Metið þar á undan var frá árinu 2019 þegar 1.464 einstaklingar gengu frá lögskilnaði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×