Undirskriftirnar eru orðnar 41.460 þúsund og segir Gunnar Smári Egilsson Sósíalistaforingi hann aldrei hafa séð annað eins. Undirskriftirnar fara hins vegar ógurlega í taugarnar á flokkshollum Sjálfstæðismönnum og þá ekki síst Brynjari Níelssyni.
„Í okkar ágæta samfélagi snýst allt orðið um skoðanakannanir og mótmæli, ýmist með undirskriftum eða annars konar aðför að einstökum ráðherrum eða öðrum. Sumir virðast halda að það sé stjórnarskrárbundinn réttur þeirra til tjáningar að beita aðra ofbeldi, til dæmis með ógnunum eða valda fjárhagstjóni, svo lengi sem það sé gert í mótmælaskyni.
Það er nú þannig samkvæmt okkar lýðræðisreglum að stjórnmálamenn sækja umboð sitt í kosningum á fjögurra ára fresti,“ skrifar Brynjar á Facebook-síðu sína.
Ljóst að margir flokkshollir eru Brynjari þakklátir fyrir skrifin en efasemdaraddirnar láta þó ekki á sér standa. Gunnar Smári er einn þeirra sem potar í Brynjar og vill meina að Sjálfstæðisflokkurinn sé vandamálið, ekki lausnin.
„Samkvæmt formanni þíns flokks eru helstu vandamál landsmanna óstjórnin í þeim málaflokkum sem hans flokksfólki hefur verið treyst fyrir: Innflytjendamál (dómsmálaráðuneytið), orkumál (umhverfis- og orkuráðuneytið) og verðbólgan (fjármálaráðuneytið). Formaðurinn þinn er því ósammála þér en sammála mótmælendum: Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lausnin, Sjálfstæðisflokkurinn er vandamálið.“