Mennirnir tveir eru sagðir hafa vaktað bandarískar herstöðvar og skipulagt árásir á hergagnaverksmiðjur og flutningaleiðir hergagna til Úkraínu. Þeir voru handteknir í Bæjarlandi í gær.
Einn mannanna heitir Dieter S. og er 39 ára gamall maður af blönduðum rússneskum og þýskum uppruna. Hann er sagður hafa verið í samskiptum við útsendara frá Rússlandi frá því í október í fyrra og mun hann hafa samþykkt að gera árásir á hernaðarinnviði í Þýskalandi og hergagnaverksmiðjur, samkvæmt frétt Spiegel.
Dieter S er sagður hafa barist fyrir aðskilnaðarsinna og Rússa í austurhluta Úkraínu frá 2014 til 2016, en sá hópur sem hann barðist með er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök í Þýskalandi og hefur hann einnig verið sakaður um aðild að hryðjuverkasamtökum.
Hinn maðurinn heitir Alexander J. og er hann sakaður um að hafa aðstoðar Dieter S. frá því í síðasta mánuði. Dieter er sagður hafa skoðað mörg möguleg skotmörk, tekið myndir og myndbönd og sent myndefnið til útsendara í Rússlandi. Financial Times segir þann mann vera útsendara Leyniþjónustu rússneska hersins (GRU).
Meðal staða sem þeir eru sagðir hafa skoðað eru herstöðvar þar sem úkraínskir hermenn fá þjálfun.
Mennirnir eru sagðir hafa verið í samskiptum við rússneskan útsendara sem er sakaður um skipulagningu sprengjuárása og íkveikja.
Þýski miðillinn DW segir að sendiherra Rússlands í Berlín hafi verið kallaður á teppið í dag vegna málsins.
Þýskaland er einn stærsti bakhjarl Úkraínu og þá sérstaklega frá því Bandaríkjamenn hættu að senda hergögn til Úkraínu á síðasta ári. Ráðamenn í Þýskalandi hafa sagt að ríkið sé mikilvægt skotmark í augum Rússa, vegna þessarar hernaðaraðstoðar og vegna þess að Þjóðverjar hafa tekið algera U-beygju í samskiptum sínum við Rússa.
Robert Habeck, aðstoðarkanslari Þýskalands, er staddur í Kænugarði þesssa dagana og fór hann á fund Vólódímírs Selenskí, forseta Úkraínu, í dag.
Rússneskir njósnarar framhleypnir
Útsendarar GRU hafa á undanförnum árum verið bendlaðir við umfangsmiklar njósnir í Evrópu, skemmdarverk og jafnvel banatilræði. Í frétt FT segir að umsvif rússneskra njósnara í Evrópu hafi aukist á undanförnum mánuðum og er haft eftir evrópskum embættismönnum að fregnirnar frá Þýskalandi bendi til þess að Rússar séu sérstaklega framhleypnir þessa dagana.
Í Þýskalandi eru rússneskir njósnarar sagðir hafa reynt að grafa undan stuðningi almennings við hernaðaraðstoð handa Úkraínu með áróðursherferðum og tölvuárásum á stjórnmálaflokka.
Ráðamenn í Þýskalandi segja að verið sé að gefa í varðandi gagnnjósnir þar í landi. Hins vegar er rétt um mánuður síðan háttsettur embættismaður í varnarmálaráðuneyti Þýskalands var handtekinn fyrir að senda háleynileg gögn til Rússlands.
Þá var einn af leiðtogum næst vinsælasta flokks Þýskalands, AfD, sakaður um að taka við peningum frá rússneskum auðjöfri fyrir að dreifa áróðri frá Rússum í Þýskalandi.