Aðstoðarmaður Maximilians Krah, Evrópuþingmanns AfD, var handtekinn í Dresden á mánudag. Hann er sakaður um að hafa komið upplýsingum um störf Evrópuþingsins í hendur kínversku leyniþjónustunnar og að njósna um kínverska andófsmenn í Þýskalandi.
Krah, sem er helsti frambjóðandi AfD fyrir Evrópuþingskosningarnar í júní, sagðist fyrst hafa frétt af handtökunni í fjölmiðlum. Aðstoðarmaðurinn, sem heitir Jian Guo, verði rekinn. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Ég er og verð áfram aðalframbjóðandinn. Þetta núna spurning um að einbeita sér að kosningabaráttunni um Evrópumál aftur og að leggja þetta ónotalega mál til hliðar,“ sagði Krah í dag.
Reuters-fréttastofan segir að handtakan sé áfall fyrir AfD sem er orðinn næststærsti flokkurinn í skoðanakönnunum fyrir Evrópu- og sveitarstjórnarkosningar í ár. Flokkurinn hefur þegar legið undir ámæli fyrir að vera hallur undir rússnesk stjórnvöld.
Krah verður ekki viðstaddur opnun kosningabaráttu AfD í Donaueschingen á laugardag vegna málsins.