Enski boltinn

Krókur Liverpool á móti bragði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arne Slot og Ruben Amorim eru taldir líklegastir til að taka við í Bítlaborginni.
Arne Slot og Ruben Amorim eru taldir líklegastir til að taka við í Bítlaborginni. Samsett/Getty

Portúgalskur blaðamaður segir fréttir um Hollendinginn Arne Slot sem mögulegan þjálfara Liverpool vera svar félagsins við óvæntum sögum um Portúgalann Rúben Amorim í vikunni. Aðrir segja tímaspursmál hvenær gengið verður frá samningum við Slot.

Fyrir um viku síðan var talið líklegast að Rúben Amorim, stjóri Sporting í Portúgal, yrði næsti þjálfari Liverpool á Englandi þegar Jurgen Klopp lætur af störfum í sumar. Það hefur snarlega breyst í vikunni.

Arne Slot, þjálfari Feyenoord í Hollandi, er nú talinn leiða kapphlaupið og segja breskir miðlar að Feyenoord hafi þegar hafnað tilboði Liverpool í stjórann.

Amorim var orðaður við stjórastarf West Ham í vikunni, sem kom mörgum á óvart vegna líkinda á því að hann tæki við stærra liði í Liverpool.

Portúgalski blaðamaðurinn Bruno Andrade, sem vinnur fyrir CNN í Portúgal, segir frá því á samfélagsmiðlinum X að Amorim og umboðsmaður hans hafi gefið West Ham undir fótinn og lekið því í fjölmiðla til að setja pressu á Liverpool í samningaviðræðunum.

Samkvæmt Andrade eru fregnirnar sem hafa fylgt í kjölfarið um að Slot taki við starfinu í Bítlaborginni verið svar Liverpool við þeirri brellu. Félagið hafi þá lekið því til fjölmiðla að Slot væri efstur á lista.

Stjórnarmenn hjá Liverpool hafa flýtt sér hægt í þjálfaramálunum en ef til vill breyttist það í gærkvöld þegar félagið virðist hafa skráð sig út úr toppbaráttunni með 2-0 tapi í grannaslag fyrir Everton.

Ítalinn Fabrizio Romano segir nefnilega á X í morgun að Liverpool muni þrýsta á Feyenoord næstu klukkustundirnar. Búið sé að ná samningum við Slot sjálfan.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu, BBC, er ákvæði í samningi Slot sem segir til um upphæð sem félag þarf að greiða til að losa hann undan samningi við Feyenoord en það ákvæði taki ekki gildi fyrr en sumarið 2025. Því þurfi Liverpool að semja við Feyenoord um upphæð ætli félagið að ráða Hollendinginn í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×