Sandra María skoraði öll fjögur mörk Þórs/KA þegar liðið vann FH örugglega, 0-4. Leikurinn fór fram á Ásvöllum þar sem Kaplakriki er ekki enn leikfær.
Sandra María skoraði eitt mark í 1. umferðinni og er því komin með fimm mörk í Bestu deildinni. Þór/KA og FH eru bæði með þrjú stig.
Hannah Sharts kom mikið við sögu þegar Stjarnan vann endurkomusigur á Keflavík, 2-3, suður með sjó.
Á 37. mínútu tók Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, markspyrnu og renndi boltanum til hliðar á Sharts. Hún hélt að markspyrnan hefði ekki verið tekin og handlék boltann. Jakub Marcin Róg, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu sem Aníta Lind Daníelsdóttir skoraði úr. Susanna Friedrichs kom Keflvíkingum svo í 2-0 þegar fyrirgjöf hennar fór í netið í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Sharts bætti þó heldur betur fyrir vítið sem hún fékk á sig. Hún jafnaði í 2-2 með tveimur mörkum og lagði svo sigurmark Stjörnukvenna upp fyrir Caitlin Cosme. Stjarnan fékk þar með sín fyrstu stig í deildinni en Keflavík er án stiga.
Amanda Andradóttir skoraði sigurmark Íslandsmeistara Vals gegn Þrótti í Laugardalnum, 1-2.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir kom Valskonum yfir á 9. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Sierra Lelii metin fyrir Þróttara. Amanda skoraði svo markið sem tryggði meisturunum stigin þrjú á 24. mínútu.
Valur er með sex stig eftir tvo sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum á meðan Þróttur er með eitt stig.
Breiðablik er einnig með sex stig eftir 3-0 sigur á Tindastóli á Kópavogsvelli. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Andrea Rut Bjarnadóttir og Agla María Albertsdóttir skoruðu mörk Blika. Stólarnir eru án stiga í Bestu deildinni og hafa ekki enn skorað mark.
Þá gerðu Víkingur og Fylkir 2-2 jafntefli í nýliðaslag í Víkinni. Sigdís Eva Bárðardóttir kom Víkingum yfir á 43. mínútu en Mist Funadóttir jafnaði fyrir Fylkiskonur tveimur mínútum síðar.
Í upphafi seinni hálfleiks náði Fylkir forystunni þegar fyrirliðinn Eva Rut Ásþórsdóttir skoraði úr vítaspyrnu. En Birta Birgisdóttir tryggði Víkingi stig þegar hún jafnaði með hælspyrnu á 59. mínútu. Víkingur er með fjögur stig í Bestu deildinni en Fylkir tvö.
Öll mörkin úr leikjum 2. umferðar má sjá hér fyrir ofan.