Körfubolti

„Gæinn væri Alpha hundur í öllum liðum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards var frábær með Minnesota Timberwolves í seríunni á móti Phoenix Suns.
Anthony Edwards var frábær með Minnesota Timberwolves í seríunni á móti Phoenix Suns. AP/Ross D. Franklin

Lögmál leiksins er á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 í kvöld en úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta er nú í fullum gangi og það er því um nóg að tala í þætti kvöldsins.

Minnesota Timberwolves varð fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í annarri umferð úrslitakeppninnar eftir að hafa sópað út stórstjörnuliði Phoenix Suns 4-0.

Strákarnir í Lögmáli leiksins ræddu meðal annars um athyglisverðan blaðamannafund eftir þennan fjórða sigur Timberwolves í röð þar sem mættir voru Karl-Anthony Towns og Anthony Edwards.

Edwards sést þar tala Towns upp með því tala um mikilvægi þess að hann sé ekki í villuvandræðum því hann skapi svo mörg vandamál fyrir mótherjanna þegar hann er inn á vellinum.

„Anthony Edwards. Ef þú ætlar að kenna eitthvað í leiðtogahæfni. Hann veit alveg að hann er betri en Karl-Anthony Towns. Hann er 22 ára og hann er þarna að peppa sinn mann upp við hliðina á sér,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson.

„Ef það vefst fyrir einhverjum hver er Alpha hundurinn í þessu liði,“ sagði Kjartan Atli.

„Gæinn væri Alpha hundur í öllum liðum,“ skaut Hörður Unnsteinsson inn í.

„Karl-Anthony Towns er með keðjurnar í flottu fötunum. Anthony Edward mætir í hlýrabolnum og er svona fimmfalt svalari,“ sagði Tómas Steindórsson.

„Spurningin var á Karl-Anthony Towns en hann tekur hana og rúllar þessari spurningu upp. Þetta er gaur sem kann að láta liðsfélaga sína líða vel,“ sagði Kjartan.

Það má sjá þetta brot úr þætti kvöldsins hér fyrir neðan.

Lögmál leiksins er á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 í kvöld og hefst klukkan 20.00.

Klippa: Lögmál leiksins: Blaðamannafundur Edwards og Towns



Fleiri fréttir

Sjá meira


×