Viðskipti innlent

Hagnaður Arion dróst saman um tvo milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Vísir/Einar

Arion banki hagnaðist um 4,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það er nokkur samdráttur sé fjórðungurinn borinn saman við sama tímabil í fyrra, þegar Arion hagnaðist um 6,3 milljarða. Bankastjóri segir afkomuna undir markmiðum.

Kjarnatekjur Arion drógust saman um tvö prósent á ársfjórðungnum og kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 48,4 prósent. Hann var 46,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Rúmlega þrettán milljarðar króna voru greiddar í arð á fjórðungnum en það samsvarar níu krónum á hlut. Hagnaður á hlut var 3,07 krónur, samanborið við 4,32 í fyrra.

Áhugasamir geta fundið frekar upplýsingar um ársfjórðungsuppgjörið hér.

Í yfirlýsingu frá Arion er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra, að þessi lægri afkoma skýrist fyrst og fremst af lægri þóknanatekjum og háu skatthlutfalli þar sem tap vegna hlutabréfa sem haldið er gegn framvirkum samningum leiðir til 38 prósenta skatthlutfalls á tímabilinu. Eiginfjár- og lausafjárstaða, auk fjármögnun bankans sé sterk.

„Við vinnum nú að því að ná markmiðum okkar varðandi hlutfall eiginfjárþáttar 1. Í lok tímabilsins var hlutfallið 18,8 prósent sem er 3,5 prósentustigum yfir kröfum eftirlitsaðila en markmið okkar er að vera 1,5-2,5 prósentustigum yfir þeirra kröfum. Í gangi er endurkaupaáætlun sem er liður í því að færa hlutfallið nær markmiði okkar,“ er haft eftir Benedikt.

Benedikt vísar einnig til þess að hægt hafi á umsvifum í efnahagslífinu vegna hárra stýrivaxta. Það hafi meðal annars valdið lægri þóknunartekjum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×