Erlent

Þrjú hundruð hand­tekin í Columbia-háskóla

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lögregluaðgerðin átti sér stað snemma í morgun á íslenskum tíma.
Lögregluaðgerðin átti sér stað snemma í morgun á íslenskum tíma. AP/Marco Postigo Storel

Um þrjú hundruð manns voru handtekin í Columbia-háskóla í New York-borg. Eric Adams borgarstjóri segir utanaðkomandi æsingamenn hafa náð ítökum meðal mótmælenda og að gyðingahatur og andóf gegn Ísrael væru útbreidd.

Hann segir lögregluna hafa staðið fyrir stærðarinnar aðgerðum á tjaldbúðum sem komið hafði verið upp við Columbia-háskóla til að mótmæla stríðsrekstri Ísraelsríkis á Gasa. Í nótt kom einnig til átaka á slíkum búðum í Kaliforníu þar sem slagsmál brutust út milli hópa mótmælenda svo að lögregla klædd óeirðabúningum slóst í leikinn.

Adams segir stúdenta eiga rétt á því að mótmæla og að tjáningafrelsið sé hornsteinn bandarísks samfélags en að óprúttnir aðilar í mótmælahreyfingunni hafi ekki hafi heldur haft óspektir í huga en friðsamleg mótmæli.

„Það er ekkert friðsamlegt við að byrgja sig inni í byggingu, að stunda eignarspjöll eða rífa í sundur öryggismyndavélar,“ segir hann á blaðamannafundi sem fór fram í New York fyrir stuttu og vísar meðal annars til þess að mótmælendur hefðu tekið Hamilton Hall yfir og byrgt sig þar inni. Byggingin hýsir fornfræði, germanskra mála- og slavneskra máladeild háskólans en hefur ítrekað spilað hlutverk í mótmælum stúdenta, meðal annars gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna í Víetnam á sjöunda og áttunda áratugnum.

Borgarstjórinn segir þá sem brutust inn í Hamilton Hall og byrgðu sig þar inni ekki hafa verið nemendur háskólans þó sumir þeirra hafi verið það. Lögreglan hefur nú fjarlægt tjaldbúðirnar af skólalóðinni og náð byggingunni aftur á sitt vald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×