Aston Villa lenti snemma tveimur mörkum undir gegn Olympiacos. Ayoub El Kaabi skoraði bæði mörkin, það fyrra fékk að standa eftir langa myndbandsskoðun.
Villa menn minnkuðu muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og jöfnuðu svo snemma í seinni hálfleik með mörkum frá Ollie Watkins og Moussa Diaby.
Það dugði þeim skammt því á 56. mínútu fékk Olympiacos vítaspyrnu. Ayoub El Kaabi steig á punktinn og fullkomnaði þrennuna. Santiago Hezze skoraði svo fjórða markið og gulltryggði sigur Olympiacos á 67. mínútu.
Aston Villa fékk tækifæri til að minnka muninn undir lokin en Douglas Luiz skaut vítaspyrnu í stöngina.
Missed a late penalty and lost the first leg 4-2 at home to Olympiacos.
— B/R Football (@brfootball) May 2, 2024
Aston Villa's UECL dream is fading away 👋 pic.twitter.com/YKrc4AtpL3
Fiorentina tók á móti Club Brugge og tryggði sigur í uppbótartíma eftir að gestirnir höfðu jafnað leikinn í tvígang.
Heimamenn komust marki yfir strax á 5. mínútu þegar Riccardo Sottil setti boltann í netið eftir stoðsendingu Nicolas González.
Skömmu síðar jöfnuðu gestirnir þegar Hans Vanaken skoraði úr vítaspyrnu sem Igor Thiago fiskaði.
Igor Thiago jafnaði svo sjálfur metin í 2-2 eftir að Fiorentina komst aftur yfir með marki frá Andrea Belotti. Þá hafði Club Brugge misst mann af velli þegar Raphael Onyedika fékk tvö gul spjöld með stuttu millibil.
Allt stefndi í jafntefli en M'Bala Nzola skoraði sigurmarkið fyrir Fiorentina á fyrstu mínútu uppbótartíma. Lokatölur 3-2 og þeir fjólubláu fara með eins marks forystu inn í seinni leikinn.
Bayer Leverkusen tekur á móti Roma eftir viku, fimmtudaginn 9. maí klukkan 19:00. Atalanta tekur svo á móti Marseille á sama tíma degi síðar.